<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, April 17, 2009

BNA

Ég hef einu sinni komið til Bandaríkja Norður Ameríku og þá bara stuttlega á leið minni til Kanada. Í Kanada eyddi ég nokkrum dögum í túristabæ dauðans, landamæraþorpinu Niagara Falls, kennt við samnefnda fossasprænu. Hef ég ítrekað lýst vonbrigðum og hneykslan með þá fossa. Gullfoss er miklu flottari. Ég var þar í vinnuferð, á ráðstefnu hjá Department of Early Childhood hjá The Council for Exceptional Children.

Í BNA og á landamærum BNA og Kanada var gríðarleg öryggisgæsla. Ég man þegar landamæravörður, sem undir öðrum kringumstæðum hefði talist hugguleg ung stúlka, hrifsaði af mér vegabréfið og skipaði mér reiðilega að gera grein fyrir ferðum mínum, fyrir framan fulla rútu af fólki sem var einnig á leið yfir landamærin. Ég sagði henni að ég væri á leið á ráðstefnu um "early childhood interventions and early childhood special education". Hún skildi augljóslega ekkert hvað ég var að fara. Sem betur fer var annar maður í rútunni sem var innfæddur og var líka á leið á sömu ráðstefnu og hann skaut sér að og sagði, ....ummm....it´s for people who work with disabled children. Sæta landamæravarðagellan sagði ekkert en virtist allavega skilja þetta svar betur. Hún rétti mér vegabréfið aftur með reiðisvip.
Ég held að hún hafi hatað mig.

Á leiðinni heim af ráðstefnu tók ég rútu til Buffaloborgar og flaug svo frá Buffalo til Boston. Þegar flugvélin lenti á Logan flugvelli í Boston kom rödd í hátalarakerfið sem sagði: Passenger Smarason, please report to Airport Security.
Ég hugsaði, ætli þau séu að tala um mig?? Eins og flugvélin væri full of fólki sem bæri eftirnafið Samerrrresshon. Ég staulaðist út og sá flugvallarstarfsmann sem hélt á skilti sem á stóð "Mr. Smarason" og nokkra öryggisverði með honum. Ég brosti til þeirra og veifaði. Þau brostu ekki til baka. You need to come with us, sir. Ósjálfrátt fór ég að hugsa um latexhanska.

Ég var tekinn afsíðis og spurður um þjóðerni, erindi mitt þarna, aldur og fyrri störf. Ég þurfti að sýna þeim ráðstefnugögn til að sanna mál mitt og flugmiðabúta af fyrri flugferðum. Í fyrstu voru þau frekar þurr á manninn. Voru með talstöð sem þau muldruðu eitthvað í annað slagið og tölvu sem þau pikkuðu á horfðu svo á skjáinn, svo á mig, svo aftur á skjáinn. Mér leið eins og ég væri að leika í "24" og fór að hugsa hvað myndi Jack Bauer gera? Ákvað svo að fara ekki of langt með þá hugsun.

Málið virtist vera það að á flugvellinum í Buffalo var tvöfalt miðakerfi. Maður þurfti einn miða til að komast inn á ákveðið svæði á flugvellinum og annan miða til að komast inn í flugvélina sjálfa. Þegar vélin var komin í loftið kom í ljós að seinni miðinn sem var rifinn af mér var alls ekki flugmiði heldur einhver kvittun sem var í flugmiðabúntinu. Flugmiðann var ég ekki með og ekki heldur fluvöllurinn í Buffalo. Hann fannst hvergi.
Ég hafði því komist um borð í flugvél í BNA, þrátt fyrir alla heimsins öryggisgæslu, án þess að hafa flugmiða. Al-Qeada ætti að bjóða mér vinnu. Þetta uppgötvaðist þegar flugvélin var í loftinu og einhverjir menn urðu heldur stressaðir. Ég er svolítið stoltur af því að hafa gert menn, sem í daglegu starfi ganga örugglega um með byssu og talstöðvar, drullustressaða. Þó það væri óvart.

Fljótt varð öryggisvörðunum það ljóst ég var meinleysisgrey og engin terroristi, þannig séð. Eftir smá japl og jaml var mér sagt að ég mætti örugglega bara fara. Þeim var farið að leiðast. Ég var bara vitleysingur sem vissi klárlega ekkert hvað hefði gerst. Þetta væru augljóslega bara einhver mistök. Þeir voru bara kammó undir lokinn. Spjölluðu um daginn og veginn og biðu eftir því að einhver sagði þeim í talstöðinni að þetta væri allt ókey. Sem það var.

Ég hef oft séð í bíomyndum að það eru svona óeinkennisklæddar flugvélalöggur til í BNA. Svokallaðir Air Marshalls. Kannski var einu sinni Air Marshall að velti því fyrir sér hvort hann ætti að skjóta mig? Gaman að því.

Monday, April 06, 2009

Ýmislegt

Jæja, ég telst nú til ömurlegustu bloggara í heimi er mér sagt. Flestir virðast sammála um að bloggið mitt hafi hrörnað verulega bæði í magni og gæðum í seinni tíð. Það er erfitt að mótmæla því. En það þýðir lítið að væla. Það er betra að blogga bara eina væna slummu.

Ég hef fengið að upplifa smá prufu af því hvernig það væri að vera einstæður faðir síðustu vikur. Tengdafaðir minn veiktist alvarlega og þurfti að fara á sjúkrahús í Rvk (honum heilsast ágætlega núna og er á góðri bataleið). Konan mín fór suður í kjölfarið til að vera hjá honum og fjölskyldu sinni þar. Í tvær vikur á meðan vorum við fegðar einir í kotinu. Ég lærði tvennt af því. Í fyrsta lagi: þetta er hægt. Við feðgar spjöruðum okkur sæmilega en það skal tekið fram að mjög oft var leitað á náðir foreldra minna, sérstaklega þegar kom að því að fá almennilegan kvöldmat. Í öðru lagi: þetta er ógeðslega erfitt. Ég ber enn meiri virðingu fyrir einstæðum foreldrum en áður.

Í síðasta bloggi minntist ég á líkamsræktarátak, þolgræju og styrktaræfingar annan hvern dag. Eins og stundum gerist með okkur sem höfum tilhneigingu til að sökkva okkur á bólakaf í hvað svosem það er sem við ákveðum að sökkva okkur í bólakaf í, hef ég sökkt mér á bólakaf í líkamsrækt. Þetta hlýtur eiginlega að koma öllum á óvart sem þekkja mig. Ég hef núna í rúman mánuð lagt stund á prógramm sem heitir P90X (sjá p90x.com) og er lýst sem extreme home fitness program. Þetta er 90 daga prógramm sem á að fara með mann frá regular to ripped á þeim tíma. Ég hef fjárfest í lóðum og teygjum. Ég hef æft af krafti daglega í fimm vikur samfleitt. Ég geri mér engar vonir um að verða ripped, en ég geri mér vonir um að vera sterkari, liðugri, úthaldsbetri og grennri. Þær vonir hafa reyndar allar ræst núþegar.

Í upphafi prógrammsins tekur maður próf til að hafa samanburð til að bera við í lokinn og til að athuga hvort maður hafi eitthvert erindi í svona prógramm á annað borð. Þetta prógram er extreme og ekki fyrir hvern sem er (yeah!). Ég var alveg á mörkunum að ná lágmarkinu til að mega fara í þetta. Til að mynda er gerð sú krafa að maður geti gert 15 armbeygjur. Ég rétt gat 17, prumpandi og emjandi.

Prógrammið byggir á mjög fjölbreyttum æfingum. Einu sinni í viku er Kenpo sem er karate æfing. Einu sinni í viku er Yoga í einn og hálfan fokking tíma í senn. Einu sinni í viku er Plyometrics sem eru hoppuæfingar. Maður er semsagt hoppandi í um það bil klukkutíma, sem þýðir gríðarlegur sviti og harðsperrur í lærum, kálfum og rassi í lágmark þrjá daga á eftir. Þessu til viðbótar eru styrktaræfingar þrisvar í viku sem skipt er niður á hendur, axlir, brjóst, bak og fætur í mismunandi samsetningum. Í kjölfar allra styrktaræfinga er 15 mínútna magaæfingaprógramm þar sem 13 mismunandi magaæfingar eru endurteknar samtals 349 sinnum. Skemmst frá því að segja að þetta er allt saman ógeðslega erfitt. Einnig skemmst frá því að segja að þetta svínvirkar.

Ég keypti mér buxur í lok janúar sem ég passa ekki lengur í. Ég er búinn að missa 12 kíló. Ég get gert ansi margar armbeygjur og ég get snert tærnar á mér án þess að beygja hnéin. Jafn skelfilega samkynhneigt og það kann að hljóma þá er ég farinn að hafa gaman af Yoga! Fokking Yoga! Og þetta er nota bene á 5 vikum. Ég á enn 7 vikur eftir af þessu. Shit, hvað ég er æðislegur.

Ég er farinn að spila á trommur svolítið aftur. Ég er að fara að spila rokk með hljómsveitinni ARRRRG! á miðvikudagskvöldið næsta í Egilsbúð. Þar er ykkur hollast að mæta og slamma í takt.

Svo mun uppáhalds hljómsveitin mín í öllum heiminum, Rufuz, koma saman á skírdag og hefja æfingar fyrir væntanlega breiðskífu. Ég hlakka svo mikið til að ég gæti gubbað. Það verður algjör snilld. Hlynur er búinn að semja böns af lögum og við Robbi erum með tvö lög í pokahorninu. Svo eru gamlir smellir sem bíða þess líka að komast á plast. Við munum kíkja á þetta allt saman um páskahelgina og sjóða saman í tímamótaverk. Þetta verður ekkert minna en stórkostlegt.

Thursday, February 05, 2009

Duglegur

Það þarf ekkert að fjölyrða um það hversu ótrúlega duglegur ég er. Ekki nóg með að ég vinni eins og skeppna, undir ómanneskjulegu álagi, í hlutverki ritara, skipuleggjara, símadömu og bílstjóra ásamt þessu hinu sem ég eyddi rúmum áratug í háskóla til að mega gera, kenni námskeið og held fyrirlestra fram á kvöld oft í viku, heldur hef auk þessa ekki borðað nammi á virkum degi síðan 5. janúar. Bara laugardagar eru nammidagar. Ég hef aukið neyslu á ávöxtum, grófu korni og skyri, allverulega. Ég hef pantað þolgræju frá vörutorgi og svo geri ég armbeygjur, magaæfingar og ýmislegt fleira, annan hvern dag. Ég er duglegur.

Ég veit hvað þið eruð að hugsa. Enn eitt heilsuátakið sem stendur í mánuð og deyr svo út. Þið hafið rangt fyrir ykkur. Ég stefni ekki að kjörþyngd. Ég stefni að því að komast úr offitu, í ofþyngd. Svo sjáum við til.

Núna má ég ekkert vera að því að blogga meira í bili. Góðar heilsur og ekki gleyma að dansa.

Wednesday, December 10, 2008

Stóra Jólasjóvsmálið

Stundum gleymi ég því að ég bý í litlum bæ. Oft gleymi ég því að það les stundum einhver það sem ég skrifa hér.

Sem fyrr segir, fórum við Valdi á barinn síðustu helgi og slysuðumst inn á lokakaflann á jólarokksjóvi Brján. Við fórum eins og gömlum hljómsveitarbrölturum sæmir að ræða um sjóvið, skynjuðum strax að það var mikil ánægja meðal gesta og ákváðum því, auðvitað, að vera alfarið á móti þessu. Fundum þessu allt til foráttu og sögðum öllum sem vildu heyra hvað þetta væri nú slappt. Valdi sagðist ætla að blogga um þetta, eitt stykki harðort eins og hann orðaði það, og hvatti ég hann eindregið til þess.

Valdi hefur síðan tekið út bloggið sitt um þetta og beðist afsökunar á því sem hann sagði. Ég hef ekki séð hvað hann skrifaði. En ég heyrði í honum í dag og hann hló svo mikið af þessu öllu saman að hann kom varla upp orði. Þannig að hann hefur það gott. Og auðvitað er þetta ógeðslega fyndið.

Allavega, ég viðurkenni það að ég var ekki mikið að hugsa um að fullt af fólki hefði lagt mikið á sig og unnið hörðum höndum að því að gera þetta vel.
Vill taka fram að ég þekki marga sem fóru á sjóvið og hef bara heyrt jákvæðar umsagnir, bæði um matinn og skemmtunina.

Það eru allir mjög ánægðir með að það sé Egilsbúð, jólahlaðborð og Brjánsjóv. Meira að segja ég og Valdi.

Keep on truckin.

Monday, December 08, 2008

Bloggletiverðlaunin

Ætli ég sé ekki búinn að vera einn slakasti bloggari heimsins þetta árið. Kannski að ég bæti það upp á næsta ári. Kannski.

Núna er nefnilega sá dásamlegi tími árs þar sem maður ákveður að gera betur á næsta ári. Tími vona og væntinga. Ég gæti skrifað langa grein um markmiðssetningu og hvernig henni er best háttað til að auka líkur manns á árangri. Þá list að færa vonir og drauma inn í raunveruleikann. Hvernig þeir sem kunna að setja sér markmið ná betri árangri en þeir sem ætla “bara” að gera sitt besta. En enginn myndi nenna að lesa það. Líka erfitt að láta það ekki hljóma of tjísí og Brian Tracy-legt.

Það er allt mjög gott að frétta. Heldur betur.

Eins og einhverjir hafa kannski rekið sig á hef ég áhuga á mannsheilanum, þroska hans og þróun. Ég á líka tveggja ára gamalt tilraundýr sem vekur upp hjá mér sífellt nýjar spurningar um heilann, þroska og þróun. Tilraunadýrið er um þessar mundir að velta fyrir sér litunum. Hann kann suma litina vel, sumum ruglar hann stundum saman og suma þekkir hann alls ekki. Hann spyr oft hvernig hitt og þetta sé á litinn. Um daginn sagði hann að húsið okkar væri eins og sólin á litinn. Sem er auðvitað rétt.

Ég kíkti á hvað menn vita um litina og heilann. Jú, kemur kannski ekki á óvart að mest virkni er í vinstra heilahveli (m.a. málstöðvum) þegar fólk nefnir, flokkar og aðgreinir liti, fyrir utan auðvitað sjónstöðvar í hnakkablaði. Hins vegar eru líka vísbendingar um það að hjá börnum sem eru ekki búin að læra að setja orð á litina sé meiri virkni í hægra heilahveli. Það sem virðist gerast við máltöku er að hæfileikinn til að flokka og aðgreina liti færist frá hægra heilahveli (sem oft er tengt við heildarskynjun, tilfinningar og innsæi þó það sé gríðarleg ofureinföldun að segja að það sé eitthvað sem hægra heilhvelið sjái alfarið um eða stjórni) yfir í það vinstra, sem oft er tengt við rökvísi, sundurgreiningu og tungumál.

Þetta finnst mér gríðarlega merkilegt. Einar Smári er að færa litina á milli heilahvela núna. Er það nema von að hann ruglist stundum.

Annað.

Ég kíkti með Valda Hetju á H. Ben á barnum síðasta föstudag. Við komum frekar snemma og sáum endinn á jólasjóinu sem flutt var meðan fólk tróð í sig hlaðborðskræsingum. Alveg án þess að vera neitt bitrir að sárir, vorum við Valdi sammála um að þetta sjó væri undir pari. Frekar slappt. Eiginlega bara glatað. Sérstaklega gerðum við athugasemdir við hvað við skynjuðum litla jólagleði frá hljóðfæraleikurunum. Við Valdi erum mjög sanngjarnir gagnrýnendur eins og allir sem þekkja okkur vita.

Tuesday, September 16, 2008

Lítill frændi og leikskólastúss

Jæja, Jóka sys og Willi eignuðust loks ágústprinsinn sinn svokallaða þann 1. september, þannig að drengurinn byrjaði ævina með því að leika rækilega á foreldra sína. Efnilegur. Hann er dásamlegur auðvitað, sefur mikið, drekkur mikið og kúkar mikið. Ekki ósvipaður ónefndum frænda sínum.

Einar Smári er byrjaður á leikskólanum og fílar það í tætlur. Hann var nokkra daga að aðlagast þessu eftir langt og mikið sumarfrí en núna er bara gaman.

Við skötuhjúin skruppum til Rvk þessa síðustu helgi í svonefnda sparnaðar- og bindindisferð. Fórum tvisvar í bíó, út að borða og í helstu verslanir. Gott. Fórum á djammið og hittum fullt af einhverju djöfulsins pakki og var það gaman.

Það er kominn pallur við húsið mitt og er það vel. Þar er hægt að sitja á haustkvöldum og fylgjast með laufunum falla af trjágróðrinum í kring. Og hugsa djúpt.

Í Rvk var farið í heimsókn til Denna og hann sýndi okkur tölvuspil sem heitir Guitar Hero. Ég var ömurlega lélegur í því og fannst það ógeðslega gaman. Við keyptum á endanum svoleiðis á tilboði í Elko. Ég ætla að spila það í kvöld!!

Ég held að Xbox 360 sé stórkostlegasta tækniundur sem mannskepnan hefur skapað. Rafeindahraðlar í Sviss geta ekki spilað Guitar Hero eða PES, eða leyft mér að vera hetja með sverð og skjöld sem berst gegn illum öflum í ævintýraheimi. Það er svo gaman! Xbox er málið. Rafeindahraðlar eru samt alveg fínir sko, sérstaklega ef þeir geta fundið Higgs bóseind. En Xbox hefur vinningin.
Ekki tala við mig um Playstation 3, sem er bara fyrir lítil börn og veimiltítur. Þar eru umbúðir og stórar fullyrðingar í auglýsingum teknar framyfir innihaldið, en því er öfugt farið með Xbox 360.

Missti mig örlítið í einni bókabúð fyrir sunnan og hef því nóg lesefni í bili. Ég er svo veikur maður í bókabúðum.

So it goes.

Wednesday, August 06, 2008

Lífsgæði

Mér þykir rosalega gaman að búa í Neskaupstað. Það er gentilett.

Neistaflugið var að klárast. Ég spilaði á trommur á tvennum tónleikum þá helgi, 90´s rokktónleikum í Egilsbúð sem heppnuðust ágætlega (fyrir utan fyrstu 3 lögin...) og svo á tónleikum Hlyns Ben á laugardeginum sem gengu vonum framar. Ég spila miklu meira á trommur í Nesk en fyrir sunnan. Gentilett.

Við ætlum að njóta flestra lífsins gæða, við fjölskyldan, þar sem við erum núna bæði fullnuma í okkar fræðum og fáum launaseðla mánaðarlega í verðlaun fyrir það. Manni hlakkar til öll námsárin að klára og fara að hala inn pening svo maður geti gert það sem manni langar. Það kemur mér samt á óvart hvað manni langar mikið í einfalda og plebbalega hluti. Til dæmis fengum við okkur áskrift að Stöð 2. Syndsamlegt. Og ég fékk mér auðvitað fótboltann líka, þ.e. stöð 2 sport 2. Svo fengum við okkur tvo afruglara (við eigum tvö sjónvörp) svo ég geti horft á fótbolta á meðan Guðný horfir á Opruh eða eitthvað. Syndsamlegt. Í gær gekk ég svo frá kaupum á Xbox 360 leikjatölvu sem kemur bráðum með póstinum. Já. Ég spila tölvuleiki. Og mér finnst það gentilett. Við eldum mikið af tælenskum mat. Syyyyndsaaaamleeeegt. Við eigum tvo bíla en ég er farin að labba oftast í vinnuna ef ég þarf ekki að fara út úr bænum. Það er líka gentilett. Við eigum okkar eigið hús sem er alltaf að komast nær því að verða fullklárað og við innréttuðum að miklu leyti sjálf. Dásamlega syndsamlegt. Við erum að skoða hvað við gerum með sólpallinn okkar. Við erum að skoða hvort við komumst í utanlandsferð í haust/vetur. Syndsamlegt.

Ég hef keypt fáar bækur, enga tónlist, engin eðalvín, engin listaverk, engar góðar bíómyndir...ekkert sem talist getur menningarlegt í tilgerðarlegasta skilningi þess orðs. Ég er bara svo ánægður með Stöð 2, Xbox og trommusett í bílskúrnum. Ég er plebbi.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að við fluttum. Til að stunda syndsamlegt líferni.

Eina sem skyggir á er að þvottavélarskömmin er biluð. Varahlutir þó á leiðinni og mamma þvær af okkur larfana á meðan. Hvar væri maður án mömmu sinnar?

Einar Smári er mikið hjá ömmu sinni og afa þar sem leikskólinn dettur ekki inn fyrr en í lok þessa mánaðar. Þau eru bæði heima þessa dagana þar sem Jóka systir er að fara að eignast næsta barnabarn þeirra einhvern tímann bráðlega.

Litla barnið lúlla í maganum, segir Einar Smári og hittir naglann á höfuðið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?